Copy

Fróðleiksmolar

frá ráðgjafardeild Fjölmenntar,
símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar

 

Febrúar 2021

Komið þið sæl

Þetta er fyrsta fréttabréf ráðgjafardeildar Fjölmenntar en áætlað er að senda út fréttabréf einu sinni í mánuði þar sem sagt er frá því helsta sem er á döfinni hverju sinni í bland við fræðslumola.

Markmið fréttabréfsins er að stuðla að því að þátttakendum nýtist námið sem best og að kynna möguleika í námi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi.

Fréttabréfið er sent forstöðumönnum og tenglum í búsetuþjónustu og á vinnustöðum / í dagþjónustu fatlaðs fólks. Einnig er bréfið sent til forstöðumanna og verkefnastjóra á símenntunarstöðvum landsins.

Anna Soffía Óskarsdóttir, Helle Kristensen og Jarþrúður Þórhallsdóttir

ráðgjafar

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð 

Í þessu fréttabréfi...

 

Í þessu fréttabréfi er fjallað um eftirfarandi:

 • Fræðslumoli mánaðarins: Talmottur sem hjálpartæki í samtölum um skoðanir og ákvarðanir
 • Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: Gögn frá námsbrautinni "Líf mitt með öðrum" - námsefni sérsniðið að fólki á einhverfurófi
 • Þjónusta ráðgjafa og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Fræðslumoli mánaðarins:
Talmottur sem hjálpartæki í samtölum um skoðanir og ákvarðanir

Kennarar hjá Fjölmennt hafa á síðastliðnum árum í auknum mæli nýtt sér talmottur í samtölum við þátttakendur sem snúa að því að segja skoðun sína eða taka ákvörðun um framhald í námi. Talmottan getur verið gott hjálpartæki til að setja sér markmið í námi í upphafi námskeiðs eða meta viðfangsefni og vinnulag þegar líður á náminu.
Notkun talmottu í tjáskiptum, "Talking Mats", er aðferð sem þróaðist í Skotlandi en á heimasíðu Talking Mats Centre má lesa meira um aðferðina, skoða myndbönd og fá hugmyndir að fjölbreytri notkun þeirra.
Talking Mats Centre

Talmottan getur nýst í öllum aðstæðum daglegs lífs
til að styðja við samtöl, sérstaklega um skoðanir, viðhorf
og ákvarðanir

 • Talmottan er þunn motta eða plata á borð, grunntáknmyndir fyrir jákvætt, hlutlaust/veit ekki, neikvætt, og táknmyndir sem afmarka hvert viðfangsefni sem um er rætt.
 • Hún nýtist vel með fólki sem hefur lítið eða ekkert talmál
 • Hún nýtist líka vel með fólki sem hefur talmál, en á e.t.v. erfitt með að halda yfirsýn í umræðuefni, eða að tala um framtíðina/hið liðna
 • Hún gefur tækifæri til að skipta um skoðun
 • Hún gerir samtalið sýnilegt og gefur fólki tíma til að hugsa og svara

Auðvelt er að útbúa talmottusett heima um þau umræðuefni
sem skipta máli hverju sinni

Lesa meira um talmottur á heimasíðu Fjölmenntar

Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: 
Gögn frá námsbrautinni "Líf mitt með öðrum" - námsefni sérsniðið að fólki á einhverfurófi

Á heimasíðu Fjölmenntar má nú finna öll gögn sem þróuð voru í tengslum við námsbrautina "Líf mitt með öðrum" árið 2015. Námsbrautin var þróuð fyrir fólk á einhverfurófi sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi.

Í þróunarverkefninu var allt kapp lagt á að umhverfi, viðmót og allar aðstæður væru þannig úr garði gerðar að þátttakendur á námsbrautinni gætu notið sín sem allra best. Ekki síst fólst það í góðum skilningi á aðstæðum þeirra, upplifun og líðan og góðu og skýru fyrirkomulagi. Skipulögð vinnubrögð og hugmyndafræði TEACCH nýttist afar vel við þróun kennsluleiða og uppsetningu kennslurýmis og námsefnis.
Á heimasíðu Fjölmenntar má sjá allt námsefni og kennsluleiðbeiningar fyrir námsgreinarnar fjórar sem voru hluti af námsbrautinni: Íþróttir, matreiðsla, tónlist og tölvur.
Einnig eru þar gögn og leiðbeiningar sem snúa að undirbúningi, sameiginlegum tímum, lokaverkefni, námsmati og útskrift á mjög aðgengilegu formi.
Námsefni og leiðbeiningar: "Líf mitt með öðrum"

Gögnin geta nýst öllum sem vinna við nám og kennslu fólks á einhverfurófi, hvort sem er í framhaldsskóla eða fullorðinsfræðslu.

Þjónusta ráðgjafa
og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Hjá Fjölmennt er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem sækja námskeið í fullorðinsfræðslu og tengiliða þeirra um land allt, þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að nám þátttakenda nýtist þeim sem best.

Ráðgjöf getur falist í:

 • Ráðgjöf til fatlaðs fólks, þeirra sem eru í námi og þeirra sem langar að sækja um nám.
 • Ráðgjöf til símenntunarstofnana og annarra fræðsluaðila sem bjóða eða hafa hug á að bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til kennara eða leiðbeinenda sem starfa við framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til aðstoðarfólks, tengla, aðstandenda og annarra talsmanna þátttakenda á heimilum og vinnustöðum þeirra.
Umsókn um ráðgjöf
Fræðsla getur verið um ýmsa þætti sem tengjast námi þátttakenda og geta hjálpað við yfirfærslu námsins á daglegt líf, til dæmis:
 • Önnur skynjun - að skilja fólk á einhverfurófi
 • Sjónrænt skipulag
 • Óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptatækni
 • Notkun snjalltækja í daglegu lífi
 • Rofar og möguleikar til virkari þátttöku
 • Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi
 • Fræðsla um námsfyrirkomulag og þjónustu Fjölmenntar fyrir verkefnastjóra og leiðbeinendur annarra fræðsluaðila
Umsókn um fræðslu

Ráðgjafar hvetja lesendur fréttabréfsins til að nýta sér þjónustuna og að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna

Hafðu samband

Hringdu í síma 530 1300 og fáðu samband við ráðgjafa:
 • Anna Soffía Óskarsdóttir er kennsluráðgjafi á sviði samsettra fatlana og tjáskiptaraskana: annaso@fjolmennt.is
 • Helle Kristensen er ráðgjafi á sviði snjalltækja og býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks í námi: helle@fjolmennt.is
 • Jarþrúður Þórhallsdóttir er einhverfuráðgjafi: jarthrudur@fjolmennt.is

Einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@fjolmennt.is

Heimasíða
Facebook
Instagram
© 2020 - Allur réttur áskilinn
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð
Vínlandsleið 14
113 Reykjavík
s. 530 1300