Copy

Fróðleiksmolar

frá ráðgjafardeild Fjölmenntar,
símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar
Umsókn um ráðgjöf
Umsókn um fræðslu

 

Maí / júní 2021

Komið þið sæl

Þetta er síðasta fréttabréf annarinnar frá ráðgjafardeild Fjölmenntar. Fréttabréfið hefur verið sent út einu sinni í mánuði og segir frá því helsta sem er á döfinni hverju sinni í bland við fræðslumola.

Markmið fréttabréfsins er að stuðla að því að þátttakendum nýtist námið sem best og að kynna möguleika í námi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi.

Anna Soffía Óskarsdóttir, Helle Kristensen og Jarþrúður Þórhallsdóttir

ráðgjafar

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð 

Í þessu fréttabréfi...

 

Í þessu fréttabréfi er fjallað um eftirfarandi:

 • Fræðslumoli mánaðarins: Upplýsingasögur - undirbúningur fyrir eitthvað sem stendur til
 • Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: Hugmyndir að heimaverkefnum - viðfangsefni sem geta nýst í sumar
 • Þjónusta ráðgjafa og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Fræðslumoli mánaðarins:
Upplýsingasögur - undirbúningur fyrir eitthvað sem stendur til

Góður undirbúningur er oft lykilatriði í því að fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi geti tekið virkan þátt í nýjum aðstæðum. Kennarar hjá Fjölmennt nota upplýsingasögur sem tæki til að auðvelda fólki þátttöku á námskeiðum. Þetta eru stuttar sögur sem lýsa aðstæðum og því sem til stendur á skýran og jákvæðan hátt.

Á sumarnámskeiðum hjá Fjölmennt nýttu margir þátttakendur tækifærið og prófuðu eitthvað nýtt. Kennarar útbjuggu eftir þörfum upplýsingasögur sem sendar voru heim til þátttakenda áður en þeir mættu á námskeiðið.

Fyrir fók á einhverfurófi sem þarf stuðning í daglegu lífi, er slíkur undirbúningur afar mikilvægur og að sjálfsögðu útfært eins og hentar hverjum og einum. Það þarf ekki að vera plastað og fínt, aðeins hafa penna og blað við hendina og kennaratyggjó ef þarf að hengja upp.
Sögurnar geta verið um það að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en venjulega.
Einnig um ákveðna þætti sem kemur í ljós að þarf að útskýra sérstaklega.
 • Útfærslan er mjög mismunandi og fer eftir þörfum og skilningi hvers og eins, svo sem lengd texta, orðalag og myndir.
 • Heiti sögu þarf að vera lýsandi fyrir það sem til stendur og hefðbundnar upplýsingasögur eru oft skrifaðar í fyrstu persónu.
 • Stundum rennur saman að hluta til saga og dagskrá eins og í fyrra dæminu hér fyrir ofan. Það getur verið nauðsynlegt fyrir þá sem eru mjög kvíðnir og þurfa að vita nákvæmlega fyrirfram hvað til stendur, þar sem allt óvænt er yfirþyrmandi.
 • Mikilvægt er að útskýra hvað á að gera en ekki hvað á ekki að gera. Sleppa að nota ekki og nei í sögunni.
 • Söguna þarf að kynna áður en atburður hefst, nokkrum dögum fyrr og svo aftur rétt áður en atburður á sér stað. Þetta er þó einstaklingsbundið.
 • Oft er nóg að skrifa á blað. Það þarf ekki alltaf að hafa myndir. Síðan strika yfir það sem er búið (þarf ekki alltaf).
Að nota upplýsingasögu er góð leið til að undirbúa ferðalög sumarsins, skemmtilega atburði eða ný viðfangsefni.
Meira um upplýsingasögur

Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: 
Hugmyndir að heimaverkefnum - viðfangsefni sem geta nýst í sumar

Á heimasíðu Fjölmenntar má finna fjölbreyttar hugmyndir að einföldum verkefnum til að vinna heima - fyrir þá sem vilja nýta sér námið áfram í daglegu lífi eða prófa eitthvað nýtt. Þessar hugmyndir er einnig upplagt að nýta í tómstundum í sumar. Verkefnunum fylgja einfaldar leiðbeiningar til útprentunar sem aðlaga má fyrir hvern og einn.
Verkefnin voru fyrst unnin í tengslum við fjarkennslu í Fjölmennt en síðan hafa kennarar á hinum ýmsu námskeiðum bætt við fjölda verkefna sem öllum er frjálst að nota.
Hugmyndir að heimaverkefnum

Á heimasíðu Fjölmenntar munu ávallt bætast við viðfangsefni sem geta gefið hugmyndir
fyrir nám og tómstundir 

Þjónusta ráðgjafa
og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Hjá Fjölmennt er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem sækja námskeið í fullorðinsfræðslu og tengiliða þeirra um land allt, þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að nám þátttakenda nýtist þeim sem best.

Ráðgjöf getur falist í:

 • Ráðgjöf til fatlaðs fólks, þeirra sem eru í námi og þeirra sem langar að sækja um nám.
 • Ráðgjöf til símenntunarstofnana og annarra fræðsluaðila sem bjóða eða hafa hug á að bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til kennara eða leiðbeinenda sem starfa við framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til aðstoðarfólks, tengla, aðstandenda og annarra talsmanna þátttakenda á heimilum og vinnustöðum þeirra.
Umsókn um ráðgjöf
Fræðsla getur verið um ýmsa þætti sem tengjast námi þátttakenda og geta hjálpað við yfirfærslu námsins á daglegt líf, til dæmis:
 • Önnur skynjun - að skilja fólk á einhverfurófi
 • Sjónrænt skipulag
 • Óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptatækni
 • Notkun snjalltækja í daglegu lífi
 • Rofar og möguleikar til virkari þátttöku
 • Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi
 • Fræðsla um námsfyrirkomulag og þjónustu Fjölmenntar fyrir verkefnastjóra og leiðbeinendur annarra fræðsluaðila
Umsókn um fræðslu

Ráðgjafar hvetja lesendur fréttabréfsins til að nýta sér þjónustuna og að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna

Hafðu samband

Hringdu í síma 530 1300 og fáðu samband við ráðgjafa:
 • Anna Soffía Óskarsdóttir er kennsluráðgjafi á sviði samsettra fatlana og tjáskiptaraskana: annaso@fjolmennt.is
 • Helle Kristensen er ráðgjafi á sviði snjalltækja og býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks í námi: helle@fjolmennt.is
 • Jarþrúður Þórhallsdóttir er einhverfuráðgjafi: jarthrudur@fjolmennt.is

Einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@fjolmennt.is

Heimasíða
Facebook
Instagram
© 2020 - Allur réttur áskilinn
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð
Vínlandsleið 14
113 Reykjavík
s. 530 1300