Copy

Fróðleiksmolar

frá ráðgjafardeild Fjölmenntar,
símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar
Umsókn um ráðgjöf
Umsókn um fræðslu

 

September/október 2021

Komið þið sæl

Hér er fyrsta fréttabréf haustannar frá ráðgjafardeild Fjölmenntar. Fréttabréfið er sent út tvisvar á önn og segir frá því helsta sem er á döfinni hverju sinni í bland við fræðslumola.

Markmið fréttabréfsins er að stuðla að því að þátttakendum nýtist námið sem best og að kynna möguleika í námi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi.

Fréttabréfið er sent forstöðumönnum og tenglum/talsmönnum á heimilum og vinnustöðum/dagþjónustu fatlaðs fólks. Einnig er bréfið sent til forstöðumanna og verkefnastjóra á símenntunarstöðvum landsins.

Anna Soffía Óskarsdóttir, Helle Kristensen og Jarþrúður Þórhallsdóttir

ráðgjafar

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð 

Í þessu fréttabréfi...

 

Í þessu fréttabréfi er fjallað um eftirfarandi:

 • Fræðslumoli mánaðarins: Sjónrænt skipulag - leið til virkari þátttöku
 • Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: Leiðbeiningar um hljóðfæraleik
 • Þjónusta ráðgjafa og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Fræðslumoli mánaðarins:
Sjónrænt skipulag - leið til virkari þátttöku

Í Fjölmennt er oft notað sjónrænt skipulag til að auðvelda þátttakendum að taka virkan þátt í náminu. Það er mikil virðing fólgin í því að skapa þær aðstæður að þátttakandi geti sjálfur gengið á milli staða og athafna í kennslustund eða annars staðar án þess að fá stöðugt munnlega og/eða líkamlega stýringu. 

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að viðkomandi skilji oftast það sem er sagt við hann þá fara orðin burt þegar þau hafa verið sögð á meðan sjónræn vísbending er til staðar þar til verkefnið er búið og vísbendingin tekin niður. Einnig er afar mikilvægt að átta sig á því að þegar einhverf manneskja verður yfirþyrmd af áreitum og kröfum frá umhverfinu og missir sjálfsstjórn, þá skilur hún oft ekki það sem er sagt. Orð geta þá virkað sem áreiti og aukið á vanlíðan. Þá er best að vera rólegur, segja sem minnst en sýna frekar hvað á að gera.

Sjónrænt skipulag byggir á hugmyndafræði TEACCH  Autism program og var upphaflega þróað fyrir einhverft fólk. Svanhildur Svavarsdóttir einhverfu- og boðskiptafræðingur hefur sett fram mikið af efni á heimasíðu sinni um sjónrænt skipulag og hvernig það getur nýst í mismunandi aðstæðum.
Sjá heimasíðu Svanhildar Svavarsdóttur
Aðaltafla
Sundurliðað verkefni
Vinnustöð
Töflumiði aftast

Grunnatriðin í sjónrænu skipulagi. 
Við höfum öll þörf fyrir að vita eftirfarandi:

 • Hvert við erum að fara
 • Hvað við eigum að gera - hver verkefnin eru
 • Hversu lengi við eigum að gera það - hvenær hvert verkefni er búið
 • Hvað við eigum svo að gera – hvað tekur við?
Skipulagið er útfært í samræmi við grunnatriðin hér fyrir ofan. Hugmyndin er að þátttakandi sem kemur inn í kennslustund eða aðrar aðstæður geti í gegn um vel útfærðar sjónrænar vísbendingar séð hvað til stendur og til hvers er ætlast af honum. Upplýsingarnar geta verið myndrænar með texta eða einungis skrifaðar, allt eftir þörfum viðkomandi. Þær geta verið í ákveðnu kerfi þannig að búnar eru til sérstakar vinnustöðvar og á þeim eru verkefnin upplistuð og aftast er miði/töflumiði í sama lit og aðaltaflan þar sem vinnustöðvarnar eru upplistaðar. Töflumiðinn segir að það eigi að fara að töflunni og sjá hvað á að gera næst. 

Vel útfært sjónrænt skipulag veitir öryggi og betri líðan og um leið aukið sjálfstæði og virkari þátttöku

Meira um sjónrænt skipulag á heimasíðu Fjölmenntar

Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: 
Leiðbeiningar um hljóðfæraleik

Á tónlistarnámskeiðum í Fjölmennt vinna þátttakendur meðal annars með hefðbundin popp- og rokkhljóðfæri: gítar, bassa, hljómborð og trommusett. Sumir eiga hljóðfæri heima sem þeir geta æft sig á. Sumir þurfa aðstoð við að nýta sér hljóðfæraleik til afþreyingar. Nú má finna auðlesnar og aðgengilegar leiðbeiningar um hljóðfæraleik á heimasíðu Fjölmenntar sem geta nýst bæði þátttakendum sjálfum sem og aðstoðarfólki þeirra. 
Í leiðbeiningunum má meðal annars sjá hvernig hægt er að stilla hljóðfæri og merkja það með litum og/eða bókstöfum þannig að þátttakandi eigi auðveldara með að spila eftir ákveðnum hljómum. Einnig má þar finna yfirlit yfir lög sem henta vel til hljóðfæraleiks á þennan hátt og hafa höfðað vel til þátttakenda á tónlistarnámskeiðum í Fjölmennt.
Sjá leiðbeiningar á heimasíðu Fjölmenntar
Vakin er athygli á að til stendur í Fjölmennt að bjóða upp á fræðsluerindi fyrir starfsfólk og aðstandendur þátttakenda á tónlistarnámskeiðum. Fræðsluerindið er sérstaklega hugsað fyrir þá sem hafa litla sem enga reynslu af hljóðfæraleik en langar að geta aðstoðað þátttakendur við hljóðfæraleik heima.
Hægt er að óska strax eftir fræðslu um aðstoð við hljóðfæraleik með því að fylla út umsóknina hér fyrir neðan
Umsókn um fræðslu

Þjónusta ráðgjafa
og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Hjá Fjölmennt er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem sækja námskeið í fullorðinsfræðslu og tengiliða þeirra um land allt, þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að nám þátttakenda nýtist þeim sem best.

Ráðgjöf getur falist í:
 • Ráðgjöf til fatlaðs fólks, þeirra sem eru í námi og þeirra sem langar að sækja um nám.
 • Ráðgjöf til símenntunarstofnana og annarra fræðsluaðila sem bjóða eða hafa hug á að bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til kennara eða leiðbeinenda sem starfa við framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til aðstoðarfólks, tengla, aðstandenda og annarra talsmanna þátttakenda á heimilum og vinnustöðum þeirra.
Umsókn um ráðgjöf
Fræðsla getur verið um ýmsa þætti sem tengjast námi þátttakenda og geta hjálpað við yfirfærslu námsins á daglegt líf, til dæmis:
 • Önnur skynjun - að skilja fólk á einhverfurófi
 • Sjónrænt skipulag
 • Óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptatækni
 • Notkun snjalltækja í daglegu lífi
 • Rofar og möguleikar til virkari þátttöku
 • Aðstoð við hljóðfæraleik
 • Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi
 • Fræðsla um námsfyrirkomulag og þjónustu Fjölmenntar fyrir verkefnastjóra og leiðbeinendur annarra fræðsluaðila
Umsókn um fræðslu

Ráðgjafar hvetja lesendur fréttabréfsins til að nýta sér þjónustuna og að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna

Hafðu samband

Hringdu í síma 530 1300 og fáðu samband við ráðgjafa:
 • Anna Soffía Óskarsdóttir er kennsluráðgjafi á sviði samsettra fatlana og tjáskiptaraskana: annaso@fjolmennt.is
 • Helle Kristensen er ráðgjafi á sviði snjalltækja og býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks í námi: helle@fjolmennt.is
 • Jarþrúður Þórhallsdóttir er einhverfuráðgjafi: jarthrudur@fjolmennt.is

Einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@fjolmennt.is

Heimasíða
Facebook
Instagram
© 2020 - Allur réttur áskilinn
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð
Vínlandsleið 14
113 Reykjavík
s. 530 1300