Copy

Fróðleiksmolar

frá ráðgjafardeild Fjölmenntar,
símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar
Umsókn um ráðgjöf
Umsókn um fræðslu

 

Nóvember / desember 2021

Komið þið sæl

Þetta er síðasta fréttabréf ársins frá ráðgjafardeild Fjölmenntar. Fréttabréfið er sent út á tveggja mánaða fresti og felur í sér fræðslumola sem tengjast námi þátttakenda og kynningu á nýju efni á heimasíðu Fjölmenntar.

Markmið fréttabréfsins er að stuðla að því að þátttakendum nýtist námið sem best og að kynna möguleika í námi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi.

Anna Soffía Óskarsdóttir, Helle Kristensen og Jarþrúður Þórhallsdóttir

ráðgjafar

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð 

Í þessu fréttabréfi...

 

Í þessu fréttabréfi er fjallað um eftirfarandi:

 • Fræðslumoli mánaðarins: Bergmálstal (echolalia) er tjáning og hefur merkingu
 • Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: Fjölbreytt námsgögn tilbúin til notkunar
 • Þjónusta ráðgjafa og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Fræðslumoli mánaðarins:
Bergmálstal (echolalia) er tjáning og hefur merkingu

Bergmálstal hjá einhverfu fólki hefur oft verið misskilið og litið svo á að það hafi ekki beina þýðingu heldur sé meira í ætt við páfagaukatal – meiningarlaus eftirherma.

Á seinni árum er farið að skoða betur hvað liggur á bak við þetta form af talmáli. Rannsóknir þar að lútandi sýna að bergmálstal er leið þeirra sem ekki hafa hefðbundið talmál til að tjá sig í mæltu máli.

Bergmálstal er þekkt þroskaþrep í máltöku barna en varir einungis í stuttan tíma. Hjá einhverfum börnum kemur bergmálstal oft mun seinna og varir oft lengi og í sumum tilvikum ná börn ekki að taka næstu þrep í málþroskanum og nýta sér því bergmálstalið sem tjáningarform áfram.
Talmeinafræðingurinn Marge Blanc hefur rannsakað bergmálstal og gefið út bókina Natural Language Acquisition on Autism spectrum. The Journey from Echolalia to Self-Generated Language. Þar segir meðal annars að við þurfum að hafa í huga að einhverft fólk er að eiga samskipti við okkur með bergmálstali. Þau eru að gera sitt besta miðað við hvar þau eru stödd í málþroska.
Sjá fyrirlestur Marge Blanc
Mikilvægt er að muna að fólk á einhverfurófi notar bergmálstal til að eiga samskipti við aðra
Einhverft fólk sem hefur hefðbundið talmál hefur einnig tjáð sig um hvernig það notar bergmálstal í daglegu lífi. Amythest Schaber sem gerir fræðslumyndbönd, Ask an Autistic, á Youtube er ein þeirra. Hún hefur gert myndband þar sem hún útskýrir bergmálstal – hvað liggur á bak við það. Hún ræðir bergmálstal sem kemur strax og einnig seinkað bergmálstal.
Með bergmálstali strax sé t.d. verið að:
 • Kaupa sér tíma til að vinna úr upplýsingum (process), hugsa svar og ná því fram.
 • Ná sambandi við fólk (interact)
  • Samsinna því sem er sagt
  • Sýna viðkomandi áhuga
  • Tjá vilja, með endurtekningunni er átt við já
 • Róa sig með því að nota ákveðna frasa
 • Fá tíma til að taka ákvörðun
 
Seinkað bergmálstal er þegar eitthvað sem hefur verið sagt er endurtekið löngu síðar. Þetta er einnig notað til tjáningar:
 • Svar við spurningu t.d. Hvað gerðir þú um helgina? Þá gæti svarið verið; gleymdu ekki sunddótinu þínu. Viðkomandi er með þessu að svara því að hafa farið í sund um helgina. Einnig gæti verið notaður frasi úr bíómynd eða ljóði til að svara t.d. um líðan.
 • Til að biðja um eitthvað eins og t.d. að drekka. Þá er kannski sagt; viltu djús? Þarf samt ekki endilega vera átt við djús, gæti verið einhver annar drykkur.
Sjá fræðsluefni Amythest Schaber
Mikilvægt er að manneskja sem einungis notar bergmálstal fái aðstoð frá einhverjum sem þekkir hana nógu vel til að geta útskýrt fyrir öðrum hvað hún á við
Lesa um bergmálstal á heimasíðu Fjölmenntar

Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: 
Fjölbreytt námsgögn tilbúin til notkunar

Á heimasíðu Fjölmenntar undir hnappnum „Námsgögn“ má finna tilbúin gögn unnin af kennurum Fjölmenntar og flokkuð eftir helstu námskeiðsflokkum. Í fréttabréfi ráðgjafardeildar hefur áður verið vakin athygli á námsgögnum sem tengjast snjalltækjum og tónlist. En einnig má finna fjölbreytt úrval námsgagna úr öðrum námskeiðsflokkum sem öllum stendur til boða að nota.

Námsgögnin standa öllum til boða - hvort sem það er til að nota í kennslu eða heima fyrir.

Námsgögnin eru sérstaklega búin til fyrir fullorðið fatlað fólk en lítið framboð er af námsgögnum fyrir þennan hóp á markaðnum. Þau geta nýst öðrum fræðsluaðilum sem bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk en einnig kennurum á sérnáms- og starfsbrautum framhaldsskólanna og jafnvel víðar.
Undir Íþróttir er að finna myndbönd sem sýna einfaldar æfingar sem nýst hafa vel á íþróttanámskeiðum hjá Fjölmennt.
Námsgögn sem tengjast íþróttum
Undir Mataruppskriftir er fjölbreytt úrval girnilegra uppskrifta til útprentunar sem settar eru upp á myndrænu formi og sýna aðferðirnar skref fyrir skref. Uppskriftirnar eru merktar með erfiðleikastigi frá mjög einföldu svo sem „Að sjóða spaghetti“ (ein kokkahúfa) yfir í flóknari verkefni svo sem „Enchilada“(fjórar kokkahúfur).
Námsgögn sem tengjast matreiðslu
Undir Myndlist og handverk eru verkefni til útprentunar sem myndlistarkennarar í Fjölmennt hafa útbúið um ýmis viðfangsefni á námskeiðum þeirra. Verkefnin sýna með myndum og texta hvaða efni og áhöld þarf að nota og síðan aðferðina skref fyrir skref.
Námsgögn sem tengjast myndlist og handverk
Undir Sjálfstyrking og valdefling eru leiðbeiningar um æfingar sem stuðla að vellíðan, svo sem þakklætisæfing og gæðastund með þeim sem á erfitt með að tjá sig og hefur flókna samsetta fötlun. Sumum leiðbeiningum fylgja slóðir að efni á Youtube eða annars staðar á Netinu sem kennarar í Fjölmennt hafa góða reynslu af að nota í slíku námi.
Námsgögn sem tengjast sjálfstyrkingu og valdeflingu

Þjónusta ráðgjafa
og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Hjá Fjölmennt er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem sækja námskeið í fullorðinsfræðslu og tengiliða þeirra um land allt, þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að nám þátttakenda nýtist þeim sem best.

Ráðgjöf getur falist í:

 • Ráðgjöf til fatlaðs fólks, þeirra sem eru í námi og þeirra sem langar að sækja um nám.
 • Ráðgjöf til símenntunarstofnana og annarra fræðsluaðila sem bjóða eða hafa hug á að bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til kennara eða leiðbeinenda sem starfa við framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til aðstoðarfólks, tengla, aðstandenda og annarra talsmanna þátttakenda á heimilum og vinnustöðum þeirra.
Umsókn um ráðgjöf
Fræðsla getur verið um ýmsa þætti sem tengjast námi þátttakenda og geta hjálpað við yfirfærslu námsins á daglegt líf, til dæmis:
 • Áskoranir fólks á einhverfurófi og hagnýtar leiðir í námi svo sem fræðsla um skynjun og sjónrænt skipulag
 • Óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptatækni
 • Notkun snjalltækja eða rofa til virkari þátttöku
 • Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi
 • Að aðstoða við hljóðfæraleik
 • Námsfyrirkomulag og þjónustu Fjölmenntar fyrir verkefnastjóra og leiðbeinendur annarra fræðsluaðila
Umsókn um fræðslu

Ráðgjafar hvetja lesendur fréttabréfsins til að nýta sér þjónustuna og að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna

Hafðu samband

Hringdu í síma 530 1300 og fáðu samband við ráðgjafa:
 • Anna Soffía Óskarsdóttir er kennsluráðgjafi á sviði samsettra fatlana og tjáskiptaraskana: annaso@fjolmennt.is - Er í leyfi
 • Helle Kristensen er ráðgjafi á sviði snjalltækja og býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks í námi: helle@fjolmennt.is
 • Jarþrúður Þórhallsdóttir er einhverfuráðgjafi: jarthrudur@fjolmennt.is

Einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@fjolmennt.is

Heimasíða
Facebook
Instagram
© 2020 - Allur réttur áskilinn
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð
Vínlandsleið 14
113 Reykjavík
s. 530 1300