Copy

Fróðleiksmolar

frá ráðgjafardeild Fjölmenntar,
símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar

 

Mars 2021

Komið þið sæl

Hér er fréttabréf mánaðarins frá ráðgjafardeild Fjölmenntar. Fréttabréfið er sent út einu sinni í mánuði og segir frá því helsta sem er á döfinni hverju sinni í bland við fræðslumola.

Markmið fréttabréfsins er að stuðla að því að þátttakendum í fullorðinsfræðslu fyrir fatlað fólk nýtist námið sem best og að kynna möguleika í námi fyrir fólk með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi.

Fréttabréfið er sent forstöðumönnum og tenglum/talsmönnum á heimilum og vinnustöðum/dagþjónustu fatlaðs fólks. Einnig er bréfið sent til forstöðumanna og verkefnastjóra á símenntunarstöðvum landsins.

Anna Soffía Óskarsdóttir, Helle Kristensen og Jarþrúður Þórhallsdóttir

ráðgjafar

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð 

Í þessu fréttabréfi...

 

Í þessu fréttabréfi er fjallað um eftirfarandi:

 • Fræðslumoli mánaðarins: Rapid Prompting Method (RPM) - aðferð til kennslu og tjáningar
 • Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: Fræðsluefni um hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun
 • Þjónusta ráðgjafa og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Fræðslumoli mánaðarins:
Rapid Prompting Method (RPM)
- aðferð til kennslu og tjáningar

RPM (hraðhvataaðferð) var þróað af Somu Mukhopadhyay, einkum fyrir einhverft fólk sem hefur lítið sem ekkert talmál.
Að baki aðferðarinnar liggur að skynjun og skynúrvinnsla fólks á einhverfurófi virkar á annan hátt en hjá öðrum. Fundið er út hvernig viðkomandi meðtekur upplýsingar best hverju sinni, svo sem sjónrænt, heyrnrænt, í gegnum snertingu eða um hreyfi- og stöðuskyn. Upplýsingar eru síðan settar fram eftir þeirri skynleið eða -leiðum sem virka best. Aðferðin er þannig aðlöguð að hverjum og einum.
Aðferðin byggir á fræðslu og unnið er að fjórum meginmarkmiðum sem eru að auka; almenna þekkingu, hæfni til að ná fram svari, þol fyrir áreitum og úthald í kennslustund og loks tjáskipti sem RPM aðferðin sjálf felur í sér. 

Í aðferðinni felst valdefling þar sem nemandanum eru gefnar leiðir sem hann hefur ekki áður haft
til að láta aðra vita hvað hann veit, skilur eða hugsar

HALO – Helping Autism through Learning and Outreach er miðstöð fyrir RPM þar sem boðið er upp á kennslu og þjálfun fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra sem og aðra sem vilja læra að nota aðferðina til kennslu og tjáningar.
Lesa meira um RPM á heimasíðu HALO
Í Fjölmennt hafa kennarar verið að prófa að nota aðferðir í anda RPM með þátttakendum og er Robin einn af þeim. Fram að þessu hefur hann fengið tvo valkosti á miðum til að svara spurningum og hefur hann sýnt góðar framfarir þar.
Robin er þessa dagana byrjaður að vinna með stafabretti þar sem hann stafar svar við spurningum með því að benda á rétta stafi.
Robin og Kristín kennari í kennslustund
 • Aðferðin byggir á fræðslu; kennarinn setur fram staðreyndir, spyr síðan spurninga og nemandi svarar. Byggt er upp ákveðið ferli sem er endurtekið.
 • Kennarinn þarf að vera hraður í framsetningu og með vel undirbúna kennslustund. Þannig er hægt að halda athygli og minnka líkurnar á að viðkomandi útiloki sig frá umhverfinu og hverfi inn í eigin hugarheim. 
 • Notaðar eru hvetjandi aðferðir (promt) til að auðvelda viðkomandi þátttöku:
  • Sjónrænt þar sem kennari setur fram tvo ólíka valkosti, t.d. skrifuð orð á miða sem haldið er uppi fyrir framan nemanda og nemandi velur á milli, eða stafaborð til að stafa orðin.
  • Heyrnrænt t.d. þegar miði er rifinn og hver stafur er sagður upphátt þegar nemandi hefur bent á hann.
  • Með snertingu þegar kennari réttir nemanda penna til að benda með.

Auðvelt er að nota aðferðir í anda RPM í margvíslegum aðstæðum daglegs lífs

Lesa meira um RPM á heimasíðu Fjölmenntar

Nýtt á heimasíðu Fjölmenntar: 
Fræðsluefni um hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun

Sífellt fleiri þátttakendur á námskeiðum hjá Fjölmennt eiga möguleika á að koma með eigin aðstoðarmanneskju á námskeið. Á heimasíðu Fjölmenntar má nú finna fjölbreytt efni sem skýrir hlutverk aðstoðarfólks í námi þátttakenda. Þetta efni gerir stjórnendum og starfsmannahópum kleift að vinna að starfsþróun í tengslum við hlutverk aðstoðarfólks, í námi og daglegu lífi.
Sjá allt efni um hlutverk aðstoðarfólks á heimasíðu Fjölmenntar
Efnið byggir á rannsókn sem Helle Kristensen, kennari og ráðgjafi hjá Fjölmennt, gerði í M.Ed.-námi sínu í sérkennslufræði árin 2018-2019 og hefur verið kynnt undir heitinu "Milliliður, stuðningsaðili eða hlutlaus fylgdarmaður - Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning".
Helle býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks. Starfsmannahópur frá íbúðakjarnanum að Kleppsvegi 90 nýtti sér það á dögunum.

Starfsmannahópar í búsetuþjónustu, á vinnustöðum þátttakenda og í fullorðinsfræðslu eru hvattir til að sækja um fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks

Þróað hefur verið fræðsluefni til útprentunar sem hugsað er fyrir starfsfólk á heimilum og vinnustöðum þátttakenda.
Fræðsluefnið býður upp á að taka reglulega fyrir afmarkað efni sem tengist hlutverki aðstoðarfólks í námi og daglegu lífi á starfsmanna- eða teymisfundum.
Í hverjum kafla er lagt til verkefni sem byggir á umræðum og samvinnu í starfsmannahópnum.
Fræðsluefni fyrir starfsfólk á heimilum og vinnustöðum

Þjónusta ráðgjafa
og umsókn um ráðgjöf og fræðslu

Hjá Fjölmennt er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem sækja námskeið í fullorðinsfræðslu og tengiliða þeirra um land allt, þeim að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að nám þátttakenda nýtist þeim sem best.

Ráðgjöf getur falist í:

 • Ráðgjöf til fatlaðs fólks, þeirra sem eru í námi og þeirra sem langar að sækja um nám.
 • Ráðgjöf til símenntunarstofnana og annarra fræðsluaðila sem bjóða eða hafa hug á að bjóða framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til kennara eða leiðbeinenda sem starfa við framhaldsfræðslu fyrir fatlað fólk.
 • Ráðgjöf til aðstoðarfólks, tengla, aðstandenda og annarra talsmanna þátttakenda á heimilum og vinnustöðum þeirra.
Umsókn um ráðgjöf
Fræðsla getur verið um ýmsa þætti sem tengjast námi þátttakenda og geta hjálpað við yfirfærslu námsins á daglegt líf, til dæmis:
 • Önnur skynjun - að skilja fólk á einhverfurófi
 • Sjónrænt skipulag
 • Óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptatækni
 • Notkun snjalltækja í daglegu lífi
 • Rofar og möguleikar til virkari þátttöku
 • Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun og/eða á einhverfurófi
 • Fræðsla um námsfyrirkomulag og þjónustu Fjölmenntar fyrir verkefnastjóra og leiðbeinendur annarra fræðsluaðila
Umsókn um fræðslu

Ráðgjafar hvetja lesendur fréttabréfsins til að nýta sér þjónustuna og að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna

Hafðu samband

Hringdu í síma 530 1300 og fáðu samband við ráðgjafa:
 • Anna Soffía Óskarsdóttir er kennsluráðgjafi á sviði samsettra fatlana og tjáskiptaraskana: annaso@fjolmennt.is
 • Helle Kristensen er ráðgjafi á sviði snjalltækja og býður upp á fræðslu um hlutverk aðstoðarfólks í námi: helle@fjolmennt.is
 • Jarþrúður Þórhallsdóttir er einhverfuráðgjafi: jarthrudur@fjolmennt.is

Einnig er hægt að senda tölvupóst á radgjof@fjolmennt.is

Heimasíða
Facebook
Instagram
© 2020 - Allur réttur áskilinn
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð
Vínlandsleið 14
113 Reykjavík
s. 530 1300